Í nýrri verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á jólabókum var Bónus oftast með lægsta verðið, í 50 tilvikum en Forlagið næst oftast, í 25 tilvikum. Penninn Eymundsson var oftast með hæsta verðið, í 43 tilvikum. Forlagið var með mesta úrvalið, 80 titla af 91 og Penninn Eymundsson með 79 titla. Mest var 88% eða 2.009 kr. munur á hæsta og lægsta verði á bókinni Mennirnir með bleika þríhyrninginn. Hæst var verðið í Pennanum Eymundsyni, 4.299 en lægst í Forlaginu, 2.290 kr.
Í Nettó voru engar verðmerkingar á bókum til staðar á sölustað og gat verðtökufulltrúi verðlagseftirlitsins því ekki tekið niður verð. Þetta samræmist ekki reglum Neytendastofu um verðmerkingar sem kveða á um að verðmerkja skuli vöru hvar sem hún er til sýnis og að auðvelt eigi að vera að sjá verð vöru og þjónustu á sölustað.
Neytendur ættu að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört í verslunum á þessum árstíma.