Öllum launagreiðslum skal fylgja launaseðill, hvort sem þú ert fast- eða lausráðinn, í fullu starfi, hlutastarfi eða sumarvinnu. Ef þú færð ekki launaseðil þá er það á þína ábyrgð að biðja um hann.
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir að félagið sé alltaf að hamra á réttindum og skyldum á vinnumarkaði en vildi núna líka minna á ábyrgðina sem við berum sjálf. ,,Vegna margra mála sem koma inn á borð félagsins ákváðum við að vekja máls á þessu því greinilegt er að of margir eru ekki að átta sig á eigin ábyrgð. Við verðum öll sem eitt að bera ábyrgð á því að fylgjast með að okkar réttur sé virtur. Hvernig gerum við það? Jú, t.d. í gegnum launaseðilinn því upplýsingar sem eiga að koma fram á honum segja okkur ansi margt. Við berum því sjálf þá ábyrgð að óska eftir launaseðli ef við fáum hann ekki, skoða hann og skilja. Hvernig ætlum við að sanna okkar rétt eða vita hvort við séum að fá rétt laun ef við getum ekki farið yfir hann? Þarna má líka nefna að vera ráðningarsamning og skrá niður vinnutíma.
Félagið hvetur félagsmenn til að skoða launaseðilinn sinn við hverja útborgun, hvort sem hann er rafrænn eða á pappír. Launaseðill getur t.d. verið rangur vegna mistaka launagreiðenda en þú áttar þig síður á því ef þú skoðar ekki launaseðilinn. Það er á þína ábyrgð að gera athugasemd og fá leiðréttingu strax ef eitthvað er að. Erfiðara getur verið að fá leiðréttingu ef langur tími er liðinn. Mikilvægt er að geyma launaseðla, því með þeim getur þú sannað þinn rétt."
Björn segir að það sé líka mikilvægt að vita á hvaða launum þú átt að vera. ,,Það er á þína ábyrgð að kanna hvort þú fáir rétt laun miðað við samninga. Hefur þú kannað það? Ekki hika við að hafa samband við félagið ef eitthvað kemur upp á eða ef einhver óvissa er til staðar. Þá munum við skoða málið með þér og hafið í huga að öll mál sem koma til félagsins eru trúnaðarmál. Félagsmaður þarf alltaf að veita samþykki sitt til að mál fari áfram í ferli ef þörf krefur."
|
||||
|
||||