„Ég hef oft átt erfiðara með að segja nei heldur en hitt.”

Í jólablaði félagsins sem kom nýlega út má m.a. finna eftirfarandi viðtal við Þorstein E. Arnórsson sem nýlega lét af störfum hjá félaginu.

„Þorsteinn E. Arnórsson hóf afskipti af verkalýðsmálum um 1970 og hefur verið í þeim geira síðan, með smá hléum þó. Hann var fyrst kosinn trúnaðarmaður 1970 á Fataverksmiðjunni Heklu fyrir kvöld- og næturvakt. Hann sat bæði í stjórn Iðju félags verksmiðjufólks og í trúnaðarmannaráði þess til margra ára og var formaður Iðju árin 1995 til 1999. Þegar Iðja og Eining sameinuðust varð hann formaður Iðnaðardeildar Einingar-Iðju og er nú þjónustufulltrúi Iðnaðar- og tækjadeildar félagsins. Hann sér m.a. um lögfræðisamskipti, innheimtumál, gjaldþrot o.fl. Þá er hann annar eftirlitsfulltrúi félagsins í sambandi við vinnustaðaskírteini. Hann var fulltrúi Iðju á stofnþing Landsambands iðnverkafólks og varaformaður þess frá árinu 1994. Þá hefur hann setið í miðstjórn ASÍ og AN.”

Ofangreind ummæli voru höfð um Steina á aðalfundi félagsins árið 2011 þegar hann var sæmdur gullmerki Einingar-Iðju. Síðasti starfsdagur Steina hjá félaginu var 31. október sl. en þá lét hann af störfum sökum aldurs, orðinn 69 ára. 

Það var ef til vill ákveðinn fyrirboði, en þegar Steini hóf störf á vinnumarkaði vorið 1961 þá var hans fyrsta verk að fara í verkfall. „Yfirleitt byrjaði vinnan í kringum 15. maí því skólinn var alltaf búinn svo snemma, en ég gat ekki hafið störf fyrr en í júní vegna verkfalls þetta vor. Þetta voru mín fyrstu kynni af kjarabaráttunni, en ekki alveg þau síðustu.” Steini bætir við að hann hafi í raun aðeins byrjað áður á vinnumarkaðinum því tvö sumur hafði hann verið sendur í sveit og „svo bar ég út Morgunblaðið í Glerárþorpi árið 1960, en þá kostaði blaðið 2 krónur.“ 

Af hverju verkalýðsbarátta?
„Ég var búin að vinna lengi á verksmiðjunum. Var alltaf duglegur að mæta á fundi og lét auðvitað aðeins í mér heyra. Það varð til þess að Jón Ingimars, þáverandi formaður Iðju, setti mig í nefnd með nokkrum góðum mönnum til að undirbúa fyrsta trúnaðarmannanámskeiðið. Námskeiðið var svo haldið á Akureyri 1973 og stóð yfir í eina viku. Það tókst mjög vel, ég sat það reyndar sjálfur enda var ég trúnaðarmaður á mínum vinnustað á þessum tíma.”

Trúnaðarmenn Einingar-Iðju eru mikilvægir hlekkir í starfi félagsins og segir Steini að trúnaðarmannakerfið sé tenging félagsins við vinnustaðina. „Það skiptir miklu máli að vera með öfluga trúnaðarmenn. Ég býst við að starf trúnaðarmannsins hafi breyst og aukist í gegnum tíðina, en það fer auðvitað bæði eftir vinnustaðnum og einstaklingnum sjálfum. Meginhlutverk trúnaðarmanna er að gæta þess að lög og samningar séu haldnir á vinnustaðnum og vera tengiliður starfsmanna við stéttarfélagið. Trúnaðarmaður á ekki að vera að standa í deilum við vinnuveitandann. Starfsfólk félagsins á alfarið að sjá um það.” 

Hvernig stóð á því að þú hófst störf á skrifstofu Iðju árið 1994?
„Ég var í þannig vinnu að ekkert var unnið á föstudögum. Starfsmaður sem unnið hafði á skrifstofu Iðju var hættur og því var ég beðinn um að vera til aðstoðar á skrifstofunni á föstudögum. Árið 1994 kom ég svo alfarið inn á skrifstofuna og árið eftir tók ég við af Kristínu Hjálmarsdóttur sem formaður Iðju. Það var með þetta eins og svo margt annað, ég ætlaði ekkert að gera þetta, maður bara svona lenti í þessu. Ég hef oft átt erfiðara með að segja nei heldur en hitt því það er gaman að takast á við áskoranir og nú tekur við ný áskorun. Ég hvorki kvíði fyrir né hlakka til að hætta. Þetta er bara skref sem þarf að taka ef þú ert svo heppinn að ná þessum aldri því það er ekki sjálfgefið að verða gamall.” 

Sameiningin
Eining-Iðja varð til við sameiningu Iðju og Einingar árið 1999 og segir Steini að tímabilið þar á undan hafi verið mjög skemmtilegt. „Lög félaganna voru ólík. Eining þurfti að fá 75% greiddra atkvæða til að samþykkja en ég þurfti að fá 75% félagsmanna Iðju til að samþykkja sameininguna. Þeir sögðu við mig hjá ASÍ að ég væri vitlaus og að ég ætti að breyta lögum Iðju, en ég neitaði því. Sem betur fer var ég með góðan stuðning frá nokkrum félagsmönnum, sér í lagi frá Jakobi Tryggvasyni sem þá var í stjórninni. Við sendum póst á alla félagsmenn til að fá viðkomandi til að kjósa, hringdum svo nánast í þá alla til áréttingar og buðumst meira að segja til að sækja atkvæði. Við reyndum allt sem okkur datt í hug. Auðvitað reyndi ég að fylgjast með hvað væri komið inn af atkvæðum og var farinn að sætta mig við það undir lokin að ná þessu ekki, en þegar til kom þá voru yfir 80% félagsmanna sem samþykktu sameiningu og mjög fáir voru á móti.” Steini segir að menn hefðu gert grín að honum á þessum tíma og sagt að “ef það heyrðist í sjúkrabíl þá hefði ég farið á eftir honum upp á spítala til að gá hvort það væri nokkuð atkvæði þar á ferðinni.” 

Mikið heillaspor
Steini segir að sameiningin hafi tekist mjög vel og hafi verið mikið heillaspor fyrir félögin og þá sérstaklega fyrir félagsmennina. „Ég sjálfur var búinn að fá ágætan undirbúning í því að hefja störf fyrir félagið. Á þessum tíma var Iðja búin að leigja Lífeyrissjóði Norðurlands skrifstofu félagsins í norðurenda Alþýðuhússins og var í staðinn með eina skrifstofu hjá Einingu. Þannig að ég kannaðist vel við nýju vinnufélagana og í raun búinn að vinna með þeim um tíma.“

Steini bætir við og segir að við sameiningu hafi verið um 720 manns í Iðju og eiginlega gert ráð fyrir að hann þekkti þá alla, „en við sameiningu þá fjölgaði félagsmönnunum um yfir 5.000 manns þannig að það var ekki séns að þekkja lengur öll andlitin. Hvað þá með nafni.”

Lenti í ýmsu
Steini segist líka hafa lent í því að verða varaformaður Landsambands iðnverkafólks. “Ég tók við því embætti þegar Kristín hætti og varð til þess að ég var í forsvari fyrir samningana þegar Flóabandalagið var myndað og Iðja í Reykjavík fór með þeim. Ég sem varaformaður þurfti því að leiða samningana fyrir landsbyggðarfólkið. Sem betur fer var það liðin tíð á þessum tíma að samningsaðilar væru lokaðir inni í Karphúsinu í marga sólarhringa án þess að fá næringu, en oft var biðin löng. Einu sinni þurfti ég að bíða í tæpa tvo sólarhringa eftir einni málsgrein frá vinnuveitendum þannig að það kom fyrir að maður þyrfti að eyða löngum stundum í Reykjavík í ekki neitt.” 

Hefur starfið mikið breyst á þessum árum sem þú hefur verið starfandi í verkalýðshreyfingunni?
“Það sem er auðvitað betra núna er allt þetta aukna upplýsingaflæði til félagsmanna. Öll þessi nýja tækni gerir hlutina einfaldari, það má finna svo að segja allar upplýsingar á heimasíðu félagsins. Oft heyrir maður að fundasókn sé ekki góð en ég er ekki viss um að hún sé eitthvað verri í dag en á árum áður. Ef þú skoðar gamlar fundargerðir þá er mjög oft verið að kvarta undan fundasókninni. Það er eðlilegt að mætt er misjafnlega vel á fundi, yfirleitt koma fleiri þegar eitthvað mikið gengur á.”

Steini segir að mesta breytingin sé tilkoma vinnustaðaskírteina. “Sérstaklega eftir að ráðinn var inn til félagsins starfsmaður til að sinna þessu eftirliti. Í upphafi þá vorum við tveir sem vorum í eftirlitinu, sem var hrein viðbót við þá vinnu sem við vorum í. Þessi sameiginlegi eftirlitsfulltrúi sem ráðinn var af 14 félögum í Eyjafirði og á Norðulandi vestra hefur alveg meira en nóg að gera að sinna eftirlitinu sem skyldi. Það voru ekki allir sáttir við þessi skírteini og ansi margir t.d. gripnir við að stunda svarta vinnu og nokkrir jafnvel á atvinnuleysisbótum en “gleymdu” að afskrá sig. Ef allir borguðu skatta af tekjum sínum væri betra að lifa á Íslandi.”

Er eitthvað sérstaklega eftirminnilegt sem stendur uppúr eftir öll þessi ár?
“Nei ég get ekki sagt það. Það er miklu fremur að maður muni eftir einhverjum málum sem tengjast vinnuveitendum, út af réttindum og slíku. Ég náttúrulega, eins og stundum áður, lenti í því að verða sá þjónustufulltrúi sem sá um innheimtumál varðandi laun, félagsgjöld og fleira. Ég var ráðinn til að vera leiðinlegur,“ segir Steini og hlær. „Væntanlega hef ég stundum staðið undir því nafni því það kom ansi oft fyrir að ég þurfti að hafa samband við aðila sem fóru ekki alveg eftir lögum og reglum. Mig minnir að það hafi ekki komið nema þrisvar fyrir að vinnuveitandi hafi skellt á mig í miðju samtali. Sérstaklega man ég eftir einu símtali, en viðkomandi vinnuveitandi var staddur í öðrum landshluta en fyrirtækið var starfrækt. Ég þurfti því að senda bréf til hans og spurði hvert ætti að senda það. Hann var eitthvað reiður við mig og sagði í fússi sendu það bara til andskotans. Ég í minni hógværð spurði bara hvert heimilisfangið væri, en þá slitnaði sambandið og í þessum manni hef ég ekki heyrt síðan.”

Nú hefur þú lengi farið fyrir hönd félagsins í skólaheimsóknir. Skipta þessar heimsóknir einhverju máli?
“Já, svona heimsóknir skipta miklu máli og eru að skila sér margfalt tilbaka. Yfirleitt spyr ég í upphafi hve margir séu að vinna með skóla og eftir því sem fleiri gera það er áhuginn yfirleitt meiri. Krakkarnir eru vel vakandi yfir réttindum sínum og jafnvel skyldum líka. Á hverjum vetri erum við að fá tvö til sex mál inn til okkar frá þeim.” Steini bætir við og segir að það sé virkilega gaman að fara í skólana með þessar kynningar, bæði í grunnskólana og einnig framhaldsskólana. “Áhuginn er auðvitað mis mikill en það hefur alveg komið fyrir að tíminn sem við fáum dugar varla. Ég man sérstaklega eftir einu skipti þar sem við vorum enn að ræða málin einni klukkustund eftir að skólatímanum lauk, en þá þurfti að slíta fundi því ég var búin að lofa mér í annað.”

Hvað nú?
„Frá því Hafdís var ráðin hér inn á skrifstofuna í minn stað þann 1. apríl sl. hef ég verið í ýmsum sérverkefnum. Meðal annars í skjalaskráningu og öflun mynda fyrir væntanlega bók um sögu verkalýðsbaráttu fyrri tíma ásamt öðru tilfallandi.” Steini segir að hann muni sinna myndaleitinni eitthvað áfram þar sem enn vantar myndir af nokkrum fyrrum formönnum félaganna. “Það eru 24 félög sem standa á bakvið nafnið Eining-Iðja og rétt rúmlega 100 formenn sem hafa verið á þessu tímabili. Það er nú eftir talsverð vinna í því verkefni þannig að ég hef nóg að gera í því sem og öðru.”

Það blundar líka smá safnari í þér, er það ekki?
“Jú, það má nú eiginlega segja það,” segir Steini og hlær. “Ég get ekki neitað því. Ég á marga steina til að setjast á nú þegar ég sest í helgan stein, ef svo má að orði komast, því ég hef verið steinasafnari í gegnum tíðina. Byrjaði eitthvað í kringum 1968 að grípa fallega steina. Ég er að safna tegundum ekki magni og á eitthvað rúmlega 200 tegundir þó ég hafi verið latur að fara síðustu árin. Svo lenti ég líka í því á sínum tíma að fara í stjórn Iðnaðarsafnsins þegar safnið var stofnað 1998. Stuttu áður kom Jón Arnþórsson til mín og sagðist vera að stofna safn til minningar um verksmiðjurnar og iðnaðinn á Akureyri. “Það var þitt fólk sem vann þarna, skrifaðu nafnið þitt hérna,” sagði hann, lagði blað fyrir framan mig og benti á pappírinn hvar ég ætti að setja nafnið mitt. Þar með var ég orðinn þriðji maður í stjórn safnsins og hef setið í henni síðan. Það var reyndar gert að sjálfseignarstofnun árið 2004 þegar það fór inn á Krókeyri. Ég hef af og til verið skráður þar safnstjóri og ber þann titil víst í dag. Það má því alveg búast við því að ég muni verja einhverjum stundum á safninu á næstunni eins og ég hef nú reyndar gert í gegnum árin. Þó safnið sé bara opið á laugardögum yfir vetrartímann þá tökum við á móti stærri hópum á öðrum tímum. Það er búið að vera mjög mikið um slíkar heimsóknir í haust, allskyns hópar en sérstaklega þó frá leikskólum og skólum bæjarins. Bara í október tókum við til dæmis á móti um 250 manns.”

Viltu segja eitthvað við félagsmenn að lokum?
“Það skiptir máli að vera virkur og mæta á félagsfundi, sérstaklega þegar verið er að undirbúa kjarasamninga. Það er mjög mikilvægt að rödd hins almenna félagsmanns heyrist,  það er ekki bara þeir sem eru trúnaðarmenn, í stjórnum deilda eða í stjórn félagsins sem hafa um þetta að segja. Hinn almenni félagsmaður verður líka að vera virkur í starfinu og koma sínum skilaboðum á framfæri. Við vitum auðvitað að allar kröfur ná ekki í gegn í samningum, það getur tekið mörg ár að ná inn ákveðnum þáttum. Það þarf bara að hamra á þessu nógu oft og fá samstöðu um hlutina því við erum alltaf að ná einhverjum kröfum sem hafa lengi verið á döfinni. Aðalatriðið er að því virkari sem félagsmenn eru því sterkara er félagið, það er nú bara þannig. Ég vil svo að lokum óska vinnufélögunum, félaginu og félagsmönnum þess alls hins besta og þakka fyrir samstarfið.”