Niðurstöður atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning 18 aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins liggja nú fyrir og var samningurinn samþykktur með 82,72% atkvæða. Nei sögðu 12,85% og 4,43% tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru samtals 23.677 félagsmenn hjá öllum 18 aðildarfélögum SGS. Atkvæði greiddu 4.156 manns eða 17.55%. Atkvæðagreiðsla um samningin stóð yfir dagana 13. til 20. mars.
Telst kjarasamningurinn, sem undirritaður var 7. mars síðastliðinn, því samþykktur hjá eftirtöldum félögum:
AFLi Starfsgreinafélagi, Öldunni stéttarfélagi, Bárunni stéttarfélagi, Drífanda stéttarfélagi, Einingu-Iðju, Framsýn stéttarfélagi, Stéttarfélagi Vesturlands, Stéttarfélaginu Samstöðu, Verkalýðsfélagi Akraness, Verkalýðsfélagi Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis, Verkalýðsfélagi Snæfellinga, Verkalýðsfélagi Suðurlands, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, Verkalýðsfélagi Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélaginu Hlíf.